Á síðasta Evrópumóti, 2022, smituðust leikmenn landsliðsins hver á fætur öðrum af kórónuveirunni og þurfti ítrekað að kalla inn nýja menn í hópinn.
Í gærmorgun, þegar Viggó mætti í viðtal á hóteli landsliðsins, voru fjórir liðsfélagar hans mjög veikir, þeir Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason, Óðinn Þór Ríkharðsson og Kristján Örn Kristjánsson.
„Maður er kominn með eitthvað smá í hálsinn en ekkert alvarlegt. Þetta er farið að minna ógnvænlega mikið á Búdapest fyrir tveimur árum. Við þurfum að halda okkur frískum og klára þetta [í dag],“ sagði Viggó.
„Við getum ekki kvartað yfir þreytu gegn Austurríki. Þeir eru búnir að spila á mikið færri mönnum allt mótið en við. Við höfum náð að rúlla þessu nokkuð vel og eigum að vera ferskari en þeir,“ sagði Viggó og bætti við að sigurinn á Króatíu gerði ekki annað en að efla leikmenn til dáða.
Ísland vann Austurríki í tveimur vináttulandsleikjum fyrir EM en Austurríki hefur spilað frábærlega á EM og aðeins tapað einu sinni, gegn Frökkum í fyrrakvöld.
„Þetta lið hefur komið mest á óvart, engin spurning. Þeir hafa spilað ótrúlega vel á mótinu. Búnir að stilla upp mjög sterkri vörn og hafa verið klókir í sókninni, þar sem þeir spila svolítið 7 á 6 líka.
Þeir töpuðu sínum fyrsta leik á mótinu [í fyrradag]. Það er ekki hægt að vanmeta þá, og líka vitandi það að við þurfum líklegast að vinna með fimm eða fleiri marka mun. Við þurfum toppleik og þá er ég bjartsýnn á að við náum að vinna með fimm,“ sagði Viggó en til að Ísland þurfi ekki hjálp Ungverja við að enda ofar en Austurríki, sem er mikilvægt upp á sæti í undankeppni Ólympíuleika, þá þarf Ísland fimm marka sigur.
Næsti leikur Íslands á EM er gegn Austurríki á morgun klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Köln og flytur fréttir af mótinu í máli og myndum.