Handbolti

„Ég er fúll út í sjálfan mig líka“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson spilaði sínar fyrstu mínútur á Evrópumótinu.
Haukur Þrastarson spilaði sínar fyrstu mínútur á Evrópumótinu. Vísir

Haukur Þrastarson átti ekki góðan dag eins og fleiri í íslenska landsliðinu sem steinlá með átta marka mun á móti Ungverjum á Evrópumótinu í Þýskalandi.

„Þetta var mjög lélegt og við erum mjög ósáttir með það hvernig við spiluðum í dag,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við Sindra Sverrisson eftir leikinn en hvað voru þeir helst ósáttir með?

„Við vorum að gera mikið af einföldum tæknifeilum og mistök sem við eigum ekki að vera að gera. Það er eiginlega allt í dag sem var alls ekki á pari,“ sagði Haukur.

Haukur fékk sínar fyrstu mínútur á mótinu en það hlýtur að hafa verið erfitt að byrja á svona leik.

„Nei, nei. Það er engin afsökun. Ég á að gera miklu betur og átti að nýta sjensinn minn betur. Ég er fúll út í sjálfan mig líka en við verðum bara setja hausinn upp og halda áfram,“ sagði Haukur.

Hefur það komið Hauki á óvart hvert hans hlutskipti hefur verið á mótinu?

„Nei ég er frekar að hugsa um hvað ég hefði getað gert betur í dag. Það var margt og hausinn er því bara að hugsa um það,“ sagði Haukur. Íslenska liðið frétti það fyrir leikinn að liðið væri komið áfram í milliriðil. Hafði það áhrif?

„Það á ekki að breyta neinu um hvernig við komum inn í þennan leik. Sama hvað gerðist í leiknum á undan þá var þetta alltaf gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur. Við vorum smá heppnir með það að vera komnir áfram. Við erum bara fúlir með frammistöðuna,“ sagði Haukur.

Það eru fjórir leikir eftir og íslensku strákarnir þurfa að gíra sig inn í þá.

„Við þurfum bara að vera fljótir að því. Það er lítill tími í næsta leik en við þurfum að vera fljótir að laga það sem er að og gera þetta betur,“ sagði Haukur.

Klippa: Viðtal við Hauk Þrastarson eftir Ungverjaleik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×