Íslenski boltinn

Segja Eggert Aron búinn í læknis­skoðun hjá Elfs­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eggert Aron skoraði 13 mörk í deild og bikar með Stjörnunni á síðustu leiktíð.
Eggert Aron skoraði 13 mörk í deild og bikar með Stjörnunni á síðustu leiktíð. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Það stefnir allt í að Stjarnan missi einn sinn besta leikmann til Svíþjóðar en Eggert Aron Guðmundsson ku vera á leið frá félaginu.

Það er Fótbolti.net sem greinir frá en þar segir að Eggert Aron sé búinn í læknisskoðun hjá silfurliði Elfsborg. Á dögunum var greint frá því að Stjarnan hefði samþykkt risatilboð í Eggert Aron og nú hefur hinn 19 ára gamli leikmaður staðist læknisskoðun í Svíþjóð.

Eggert Aron átti frábært tímabil þegar Stjarnan endaði í 3. sæti á síðustu leiktíð en hann var á endanum kosinn efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar. Hann er hluti af A-landsliðshóp Íslands sem mætir Gvatemala og Hondúras í næstu viku.

Gangi vistaskiptin eftir er Eggert Aron að ganga í raðir mikils Íslendingalið en sem stendur eru markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson og framherjinn Sveinn Aron Guðjohnsen á mála hjá félaginu. Þá var miðjumaðurinn Andri Fannar Baldursson á láni hjá liðinu á síðustu leiktíð.

Elfsborg endaði í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir harða baráttu við Malmö þar sem liðin mættust í lokaumferð deildarinnar. Þar hafði Malmö betur og tryggði sér sigur í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×