FH varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn sumarið 2004 og vann síðan sjö Íslandsmeistaratitla til viðbótar frá 2005 til 2016. Þegar titilinn vannst fyrir tuttugu árum þá var FH búið að spila í efstu deild, með smá hléum, í næstum því þrjá áratugi.
Sumarið 2004 þá tókst FH-ingum að ná í þann stóra og hefja um leið ótrúlega sigurgöngu sína. Meðal annars ætlar FH að halda upp á tímamótin með því að gefa aðdáendum kost á að velja sitt uppáhalds byrjunarlið úr sögu FH-liðsins.
Ætlunin er að heiðra þá leikmenn sem hafa staðið vaktina frá stofnun félagsins. Aðdáendur FH, fjölmiðlar og knattspyrnuáhugafólk allt er hvatt til að taka þátt í kosningu um besta byrjunarlið félagsins.
Kosinn er einn leikmaður í hverja stöðu og á kosningarsíðunni má sjá hvaða leikmenn eru tilnefndir. Nokkrir af leikmönnunum eru þó tilnefndir í fleiri en eina leikstöðu enda hafa margir fjölhæfir leikmenn spilað fyrir félagið.
„Viltu stilla upp þínu uppáhalds liði frá árum áður? Eða viltu sjá Daða Lárusson senda langan bolta á Vidda Halldórs sem flikkar honum áfram á Atla Guðna? Valið er þitt!,“ segir í kynningu á kosningunni á heimasíðu FH-inga.
Opnað hefur verið fyrir kosningu og fer hún fram á heimasíðu FH. Kosning stendur yfir til 1. mars og verður besta byrjunarliðið þá tilkynnt við hátíðlega athöfn. Öll sem taka þátt í að velja besta byrjunarliðið fara í pott og eiga möguleika á að vinna sér inn áritaða treyju af leikmönnum Meistaraflokks Karla.