„Fólki finnst hún hafa verið nákomin, kannski nákvæmlega eins og Kristín Árnadóttir, sem var að láta af embætti á þessu ári sem sendiherra, var nákomin Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar.“
Bjarni sagðist líta svo á að sitt hlutverk væri að finna hæft fólk í sendiherrastöðurnar. Hann sagðist ekki hafa heyrt neitt annað en að fólk teldi að Svanhildur myndi standa sig vel. Það væri algjört aðalatriði málsins.
„Ég er gríðarlega ánægður með að hún skuli hafa fallist á að koma. Samband mitt við Svanhildi hefur hundrað prósent verið á faglegum nótum,“ sagði Bjarni. „En það er ekki þannig að hún sé einn af mínum nánustu vinum. Það er bara einfallega ekki þannig“
En hún er góður vinur, er það ekki?
„Hún er auðvitað langtíma samstarfsaðili minn. Og auðvitað myndast ákveðin vinátta við það. Það er ekki þannig að hún hafi hafið störf hjá Sjálfstæðisflokknum, eða í starf hjá mér, á grundvelli vináttu. Þetta var alltaf á faglegum nótum.“
Bjarni sagði að mörg nöfn hefðu komið til greina í embættið. Hann hefði í raun verið að hugleiða skipunina síðan hann tók við utanríkisráðuneytinu í haust. Hann tók fram að hann væri ánægður með ákvörðunina.