Sport

Þessi þrjú gætu orðið Íþrótta­eld­hugi ársins

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Elí Magnússon, Guðrún Kristín Einarsdóttir og Edvard Skúlason koma til greina sem Íþróttaeldhugi ársins 2023.
Ólafur Elí Magnússon, Guðrún Kristín Einarsdóttir og Edvard Skúlason koma til greina sem Íþróttaeldhugi ársins 2023. ÍSÍ

Íþróttaeldhugi ársins verður útnefndur í annað sinn þann 4. janúar næstkomandi, á hófinu vegna kjörsins á Íþróttamanni ársins. Þrír ötulir sjálfboðaliðar úr íþróttahreyfingunni eru tilnefndir sem Íþróttaeldhugi ársins 2023.

Það er ÍSÍ, í samvinnu við Lottó, sem stendur fyrir kjörinu á Íþróttaeldhuga ársins. Sérstök valnefnd fékk það verkefni að velja þrjá einstaklinga af 112 sem voru tilnefndir, úr tuttugu íþróttagreinum.

Fyrir valinu urðu þessi þrjú, í stafrófsröð:

Edvard Skúlason (knattspyrna), hefur starfað fyrir Knattspyrnufélagið Val,

Guðrún Kristín Einarsdóttir (blak) hefur starfað fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands og

Ólafur Elí Magnússon (borðtennis, glíma blak, badminton, frjálsíþróttir) hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon.

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta til áratuga. Eitt þeirra verður svo fyrir valinu sem Íþróttaeldhugi ársins næsta fimmtudagskvöld.

Fyrir ári síðan varð Haraldur Ingólfsson fyrsti Íþróttaeldhugi ársins, en hann hefur starfað fyrir allar deildir Íþróttafélagsins Þórs og sinnt mjög stóru hlutverki hjá kvennaliði Þórs/KA.

Eins og fyrr segir voru 112 einstaklingar tilnefndir í ár en kallað var eftir tilnefningum frá íþróttahreyfingunni og landsmönnum öllum.

Valnefndina var skipuð þekktu íþróttafólki en það voru þau Þórey Edda Elísdóttir, formaður, Kristín Rós Hákonardóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Snorri Einarsson og Dagur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×