Fótbolti

Mjög stutt í að Svein­dís Jane snúi aftur

Aron Guðmundsson skrifar
Sveindís Jane er ein af okkar bestu fótboltakonum og bíða margir spenntir eftir endurkomu hennar á fótboltavöllinn
Sveindís Jane er ein af okkar bestu fótboltakonum og bíða margir spenntir eftir endurkomu hennar á fótboltavöllinn Vísir/Arnar Halldórsson

Það er mjög stutt í að við fáum að sjá ís­­lensku lands­liðs­­konuna Svein­­dísi Jane Jóns­dóttur, leik­mann Wolfs­burg, aftur inn á knatt­­spyrnu­vellinum eftir meiðsla­hrjáða mánuði. Þessi öflugi leik­­maður hefur ekki setið auðum höndum þrátt fyrir að hafa ekki geta' sinnt at­vinnu sinni að fullu að undan­förnu. Hún er rit­höfundur nýrrar barna­­bókar sem kom út núna fyrir jólin.

Svein­dís varð fyrir því ó­láni að meiðast í lands­liðs­verk­efni með Ís­landi í septem­ber síðast­liðnum og hefur hún því nú verið fjarri fót­bolta­vellinum í rúma þrjá mánuði.

Nú hefur liðið smá tími síðan að við sáum þig síðast inn á vellinum. Hver er staðan á þér í dag?

„Hún er mikið betri núna en þegar að ég datt út í septem­ber,“ segir Svein­dís Jane. „Ég hef eigin­lega ein­göngu verið að taka hlaupa­æfingar síðan þá. En er öll að koma til núna og ætti verða klár í slaginn eftir ára­mót.“

Svein­dís hefur verið að glíma við rifu í hnésininni og því hefur það tekið sinn tíma að jafna sig af því. Þetta meiðsla­tíma­bil hefur tekið á fyrir Svein­dísi.

„Þetta lítur betur út núna. Rifan mun minni en hún var fyrst. Það er búið að vera ó­geðs­lega erfitt að mega ekki æfa á fullu og geta þar af leiðandi ekki spilað leiki. Ég hef þó verið að nýta tímann vel í að vinna í mínum styrk og ég tel það hafa hjálpað mér mikið. Vonandi mun það gefa mér þetta extra inn á vellinum.“

Góðu fréttirnar eru þær að Svein­dís er smám saman búin að vera taka meiri þátt í æfingum með Wolfs­burg núna fyrir jólin.

„Ég fékk að æfa með liðinu síðustu vikurnar fyrir jóla­frí. Þar tók ég þátt í upp­hitun og sendingar­æfingum. Þetta er allt að koma og planið er það að ég geti verið með að fullu þegar að ég fer aftur til Þýska­lands eftir jóla­fríið. Það er mjög stutt í þetta.“

Sveindís Jane í leik með WolfsburgVísir/Getty

Það eru náttúru­lega mikil­vægir lands­leikir fram­undan hjá ís­lenska kvenna­lands­liðinu gegn Serbíu í um­spili A-deildar Þjóða­deildarinnar undir lok febrúar­mánaðar á næsta ári. Þú væntan­lega stefnir á að geta hjálpað liðinu þar?

„Já, auð­vitað. Þetta eru ó­trú­lega mikil­vægir leikir fyrir okkur. Við þurfum að vinna þá og halda okkur í A-deildinni. Það er mikið undir og ég vona svo sannar­lega að ég geti spilað og hjálpað liðinu að halda sæti sínu í deildinni sem við eigum heima í.“

Saga af stelpu í fótbolta

En það er ekki eins og þessi öfluga fót­bolta­kona hafi setið auðum höndum þrátt fyrir að geta ekki nýtt sína aðalhæfi­leika inn á knatt­spyrnu­vellinum.

Hún hefur nýtt sköpunar­gáfu sína á öðru sviði og í að­draganda jóla kom út bókin Svein­dís Jane: Saga af Stelpu í fót­bolta. Og gátu að­dá­endur Svein­dísar fengið að bera hetjuna sína augum og fengið á­ritað ein­tak af bókinni í Hag­kaup í Smára­lind í dag.

Sveindís tekur þátt í jólabókaflóðinu þetta árið með þessari stórskemmtilegu barnabókVísir/Arnar Halldórsson

„Þetta er bara geggjað. Mér finnst þetta bara skemmti­legt. Að prófa nýtt hlut­verk. Ég er einnig mjög sátt með út­komuna á bókinni.“

En fyrir þau sem ekki vita, um hvað fjallar þessi bók?

„Þetta er bók sem tekur fyrir yngri árin hjá mér. Þegar að ég byrjaði að æfa fót­bolta um átta ára aldur sem telst kannski frekar seint núna. Bókin geymir blöndu af frá­sögn á sann­sögu­legum at­burðum og smá skálduðu efni sem ég nota til þess að krydda að­eins upp á söguna.“

Hún hafði í nógu að snúast við að árita bækur fyrir spennta aðdáendur sína í Hagkaup í Smáralind í gær.Vísir/Arnar Halldórsson

Hefur rit­höfundurinn alltaf blundað í þér?

­„Nei ekkert svo­leiðis. En Sæ­mundur út­gefandinn minn hafði sam­band við mig á sínum tíma fyrir ári síðan og vildi at­huga hvort ég hefði á­huga á því skrifa svona bók. Við hjálpuðumst að með það. Þetta hefur verið ó­trú­lega gaman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×