Innlent

Stólaskiptin höfðu mikil á­hrif á traustið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórdís og Bjarni skiptast á ráðherrastólum í október. Skiptin höfðu töluverð áhrif á traust til ráðherrastólanna.
Þórdís og Bjarni skiptast á ráðherrastólum í október. Skiptin höfðu töluverð áhrif á traust til ráðherrastólanna. Vísir/Vilhelm

Landsmenn bera mest traust til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en minnst til Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra í nýrri könnun Maskínu þar sem spurt er út í traust til ráðherra þjóðarinnar. Traust til ráðherra er lítið heilt yfir.

Maskína gerði sömu könnun fyrir ári og má merkja nokkrar breytingar á milli ára. Annars vegar var kannað hlutfall landsmanna sem bera mikið traust til ráðherraembættis og hins vegar lítið traust.

Lítið traust annars vegar og mikið traust hins vegar.Maskína

Mikið traust til Katrínar fellur

Þegar horft er til hlutfalls þeirra sem bera mikið traust til ráðherraembættis minnkar mikið traust til utanríkisráðherra um átján prósent á milli ára. Bjarni tók við af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem utanríkisráðherra á árinu. 

Mikið traust til fjármálaráðherra eykst að sama skapi um átta prósent en Þórdís tók við embættinu af Bjarna. Þau höfðu stólaskipti.

Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til ráðherraembættis.

Mikið traust til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fellur um níu prósent en mestur munur í miklu trausti til Ásmundar Einar Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra sem fellur um tuttugu prósent.

34 prósent bera mikið traust til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. 17 prósent bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra sem vermir botnsætið.

Þrír af fjórum bera lítið traust til Bjarna

Þegar litið er til hlutfalls þeirra sem bera lítið traust til ráðherraembættis er stærsta stökkið hjá utanríkisráðherra. 75 prósent landsmanna bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar í embættinu en hlutfallið var 34 prósent þegar spurt var fyrir ári og Þórdís Kolbrún gengdi embættinu.

Hlutfall þeirra sem bera lítið traust til ráðherraembættis.Maskína

Með tilkomu Þórdísar í fjármálaráðuneytinu er hlutfall þeirra sem bera lítið traust til ráðherraembættisins komið í 41 prósent en var 62 prósent í fyrra þegar Bjarni var fjármálaráðherra.

Hægt er að kynna sér niðurstöðu könnunarinnar í þaula í viðhenginu hér að neðan.


Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×