Orri verður vonandi í sviðsljósinu í kvöld þegar FCK mætir í lokaleik riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Fólkið hjá CIES Football Observatory er duglegt að nýta sér upplýsingar úr fótboltaheiminum til að setja saman alls konar lista.
Orri kemst á einn af þessum listum og sá listi er athyglisverður.
CIES tók þá saman hvaða framtíðarleikmenn frá Norðurlöndum eru verðmætastir en á listann komust bara leikmenn 23 ára og yngri.
Orri er þar sjöunda sæti en CIES verðmetur hann á 9,4 milljónir evra eða 1,4 milljarða íslenskra króna.
Orri Steinn er nítján ára og hefur verið í Kaupmannahöfn frá 2020. Hann fór á láni hjá Sönderjyske í janúar en kom aftur til FCK í sumar. Orri hefur skorað sjö mörk fyrir FC Kaupmannahöfn á leiktíðinni og sín tvö fyrstu mörk fyrir íslenska landsliðið.
Tveir liðsfélagar Orra hjá FCK eru fyrir ofan hann en það eru Elias Jelert (16,3 milljónir) og Roony Bardghji (14,2 milljónir). Jelert er tvítugur hægri bakvörður en Bardghji er átján ára vængmaður.
Sá verðmætasti er aftur á móti Albert Grönbæk sem spilar sem miðjumaður hjá Bodö/Glimt í Noregi. Grönbæk er 22 ára Dani sem kom til Noregs frá AGF árið 2022.