Beth Mead kom heimakonum í Arsenal yfir strax á áttundu mínútu eftir stoðsendingu frá Victoria Pelova áður en Johanna Rytting Kaneryd jafnaði metin fyrir Chelsea fimm mínútum síðar.
Heimakonur fóru þó með tveggja marka forystu inn í hálfleikshléið eftir að Amanda Ilestedt og Alessia Russo skoruðu sitt markið hvor með tveggja mínútna millibili þegar um tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum.
Russo gerði svo út um leikinn með marki úr vítaspyrnu þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Lokatölur 4-1, Arsenal í vil, og sigurinn lyftir liðinu upp að hlið Chelsea á toppi deildarinnar. Liðin eru nú bæði með 22 stig eftir níu leiki, þremur stigum meira en Manchester City sem situr í þriðja sæti.