Fótbolti

Bræður munu berjast í Mal­mö: „Vona að þeir standi sig vel“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Malmö og Elfsborg mætast á sunnudag í leik sem sker úr um hvort liðið verður sænskur meistari.
Malmö og Elfsborg mætast á sunnudag í leik sem sker úr um hvort liðið verður sænskur meistari. Malmö/Elfsborg

Það er sannkallaður úrslitaleikur í Allsvenska, sænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, á sunnudag. Toppliðin Elfsborg og Malmö mætast í leik sem sker úr um hvort félagið verður meistari. Það gæti farið svo að bræður muni berjast í leiknum og var þriðji bróðurinn spurður út í hvorn þeirra hann vildi sjá lyfta meistaratitlinum.

Íslendingalið Elfsborg trónir á toppi sænsku deildarinnar sem stendur með þriggja stiga forystu á Malmö sem er í öðru sætinu. Þessi lið mætast á Eleda-vellinum í Malmö í leik þar sem gestunum dugir jafntefli.

Í liði gestanna eru þrír Íslendingar; markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson, miðjumaðurinn Andri Fannar Baldursson og framherjinn Sveinn Aron Guðjohnsen. Í heimaliðinu er einn Íslendingur, Daníel Tristan Guðjohnsen – bróðir Sveins Arons.

Andri Lucas Guðjohnsen, bróðir þeirra Sveins og Daníels var spurður út í hvorn bróðirinn hann myndi vilja sjá standa uppi sem sænskur meistari.

„Við í fjölskyldunni höfum sagt að við viljum að Sveinn Aron vinni þennan með Elfsborg, hann er eldri. Daníel Tristan fær fær fleiri tækifæri (til að vinna titilinn). Ég meina, þetta verður mjög forvitnilegur leikur en ég vona að þeir standi sig vel.“

Hinn 25 ára gamli Sveinn Aron hefur komið við sögu í öllum 29 leikjum Elfsborg á tímabilinu, skorað sex mörk og gefið eina stoðsendingu. Daníel Tristan er hins vegar aðeins 17 ára og hefur verið að glíma við meiðsli á þessari leiktíð. Hann hefur aðeins leikið einn leik með Malmö síðan hann gekk í raðir félagsins í apríl á þessu ári.

„Litli bróðir minn hefur verið frá keppni vegna meiðsla undanfarið en Sveinn Aron er að spila með Elfsborg, ég vona að hann spili vel og svo sjáum við hvor stendur uppi sem sigurvegari,“ sagði Andri Lucas, sem leikur með Lyngby í Danmörku, að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×