Sport

Mögulega á heimleið væri ekki fyrir tvær til þrjár sekúndur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Remy Martin hefur skorað 85 stig í 85 skotum. Það ku vera mjög slæm skotnýting.
Remy Martin hefur skorað 85 stig í 85 skotum. Það ku vera mjög slæm skotnýting.

Í Subway Körfuboltakvöldi á föstudagskvöldið skapaðist umræða um bandarískan leikmann Keflvíkinga, Remy Martin en hann átti afleitan fjórða leikhluta gegn Stjörnunni í 4. umferð deildarinnar.

Remy var með 26 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en setti aðeins niður þrjú vítaskot í þeim fjórða og lítið gekk upp hjá leikmanninum síðustu tíu mínútur leiksins.

Teitur Örlygsson sérfræðingur í þáttunum telur að mögulega séu aðeins örfáar sekúndur í síðustu leikjum að bjarga Martin frá því að vera sendur heim.

Martin setti niður sigurkörfu gegn Val í þar síðustu umferð og það undir blálok leiksins. Svo stal hann mikilvægum bolta gegn Njarðvíkingum í 32-liða úrslitum bikarsins í síðustu viku, í leik sem Keflavík vann með tæpasta mun.

„Hann er að skjóta alveg ofboðslega mikið. Í þessum fyrstu vikum á tímabilinu er hann ekki með nema 34 % skotnýtingu yfir tímabilið. Hann er kominn með einhver 85 stig í 85 skotum sem er ekkert sérstakt. Ef hann væri að hitta vel þá væri hann að skora fimmtíu stig í leik,“ segir Teitur og heldur áfram.

„Það er margir orðnir hrifnir af honum núna eftir dramatíkina í síðustu viku. Hann skorar geggjaða körfu á móti Val og stelur boltanum á móti Njarðvík í bikarnum sem tryggir þeim framlengingu og Keflavík vinnur. Ef hann hefði ekki hitt þessu skoti og ekki stolið þessum bolta, eitthvað sem gerðist á einhverjum tveimur eða þremur sekúndum þá væri pressa núna í Keflavík um að reka hann,“ segir Teitur. 

Hér að neðan má sjá umræðuna um Remy Martin frá því á föstudagskvöldið.

Klippa: Mögulega á leiðinni heim ef hann hefði ekki sett skotið og stolið boltanum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×