„Það eru mikil vonbrigði að ná ekki að vinna þennan leik og þetta eru svekkjandi og vond úrslit. Frammistaðan var fín í fyrri hállfeik og þar fengum við fullt af færum sem við hefðum átt að nýta betur. Það er svo bara þannig í landsleikjum að ef þú nýtir ekki færin þá er þér refsað,“ sagði Gylfi Þór að leik loknum.
Gylfi Þór kom inná þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum og átti flotta innkomu.
„Það var frekar erfitt að koma inná, bæði mikill vindur og þurr völlur. Ég finn að leikforrmið er að koma en það eru svona 3-4 mánuðir í að ég verði kominn í mitt besta stand. Það var gott að fá þessar mínútur í þessum leik og vonandi verða þær fleiri á móti Liechtenstein,“ sagði sóknartengiliðurinn.
„Tilfinningin er yndisleg að vera kominn aftur og spila á Laugardalsvellinum á nýjan leik fyrir framan íslensku þjóðina. Það var draumur minn þegar ég var lítill strákur að spila fyrir land og þjóð og síðustu ár hefur mig dreymt um að snúa aftur í landsliðstreyjuna,“ sagði Gylfi.
