Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá helstu sérfræðinga Norðurlandanna í vetni á ráðstefnu á Fosshóteli í Reykjavík. Þar voru saman komnir vísindamenn frá háskólum og rannsóknastofnunum á Norðurlöndunum en einnig fulltrúar atvinnulífsins. Lausnirnar gætu skipt Íslendinga miklu máli.
„Við erum svo heppin að eiga mikið af grænni orku og það hefur verið mikið í umræðunni hér á landi að framleiða það sem heitir grænt vetni með hreinni orku,“ segir Anna Margrét Kornelíusdóttir, verkefnisstjóri hjá Íslenskri nýorku.
En einnig annað rafeldsneyti, eins og ammoníak og metanól. Hún spáir því að fyrstu vetnistrukkarnir aki á Íslandi á næsta ári.
„Við munum klárlega geta nýtt vetni bæði fyrir þungaflutninga og ábyggilega stærri tegundir af skipum,“ segir Anna Margrét.
Hér má sjá lausn sem Icelandair skoðar fyrir innanlandsflugið:
Norðmenn eru komnir af stað með spennandi þróunarverkefni.
„Við höfum byggt upp svokallaðar vetnisstöðvar sem hafa verið fjármagnaðar í Noregi. Þær eru víða um land og framleiða vetni í stórum stíl til nota í sjóflutningum,“ segir Sigrid Lædre, rannsóknastjóri Sintef í Noregi.
Norðmenn eru meira segja byrjaðir að knýja skip með vetni.
„Við erum með ferju sem heitir MF Hydra og er þegar starfrækt til farþegaflutninga. Við höfum sett á stofn verkefni sem miðast við minni farartæki, til dæmis fiskibáta og báta í fiskeldi,“ segir Sigrid.

Ef Ísland ætlar að vera með þarf að byggja upp þekkingu á vetni og innviðum, segir Anna Margrét.
„Við þurfum að leggjast í gríðarlegar fjárfestingar á innviðum, bæði til framleiðslu, dreifingar og geymslu á þessu eldsneyti, vetni eða metanóli eða ammoníaki, eða hvað það er.
Og ekki síst þurfum við að ráðast í það að veita tækjakaupastyrki vegna þess að, enn sem komið er, er þessi vistvæna tækni dýrari en þessi hefðbundna sem nýtir jarðefnaeldsneyti. Þannig að fyrirtæki sem eru í samkeppnisumhverfi eiga ekki eins auðvelt með að ráðast í þessar fjárfestingar.“
Auk þess þurfi að byggja upp raforkukerfið og styrkja dreifikerfið og flutningskerfið.
„Við munum ekki sigra orkuskiptin á nýtninni einni saman,“ segir Anna Margrét Kornelíusdóttir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: