Bryndís Arna Níelsdóttir hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar þegar landsliðshópurinn var kynntur fyrir leikina gegn Wales og Þýskalandi. Sagði Þorsteinn hana ekki tilbúna í verkefni með A-landsliðinu. Vakti það töluverða athygli því Bryndís varð markahæst í deildakeppni Bestu deildar kvenna í sumar og skoraði þar 14 mörk.
Bryndís Arna spilaði hins vegar með U-23 ára liði Íslands í gær og skoraði í sigri þess gegn Marokkó. Eftir leikinn var Bryndís síðan kölluð inn í A-landsliðshópinn vegna meiðsla Sveindísar Jane Jónsdóttur.
„Það var geggjað að fá kallið. Ég hoppaði af gleði,“ sagði Bryndís Arna þegar Svava Kristín íþróttafréttakona heyrði í henni hljóðið í morgun. Bryndís Arna var þá stödd í París á leið sinni til Þýskalands þar sem hún hittir landsliðshópinn.
„Ég vissi ekkert að það væri einhver tæpur þannig að ég var bara að undirbúa mig fyrir verkefnið með U23-ára liðinu. Ég var með fullan fókus þar og þetta kom skemmtilega á óvart.“
Ísland mætir Þýskalandi í Þjóðadeildinni á þriðjudaginn en liðið vann góðan 1-0 sigur á Wales í gær.