Bjarni Fel féll frá þann 14. september síðastliðinn en hann var einn mesti og þekktasti KR-ingur landsins. Hann spilaði með félaginu á gullaldarárum félagsins og lýsti síðar leikjum karlaliðsins í KR-útvarpinu.
Vonir standa til að fjölmenni verði í Vesturbænum á morgun þar sem minning Bjarna Fel verður haldið hátt á lofti. Flautað verður til leiks klukkan 14 en fólk mætt til að mæta tímanlega og taka þátt í stemmningunni.
Sonja Hlín Arnarsdóttir, markaðs- og viðburðarstjóri KR, segir að allt verði gert til að heiðra Bjarna með viðeigandi hætti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi boðað komu sína í vesturbænum. Þá ætti enginn í póstnúmeri 107 að komast hjá því að hugsa til Bjarna um helgina enda verður yfirtaka á strætóskýlum í hverfinu með mynd af Bjarna.
Mínútuþögn verður fyrir leikinn og þá verður inngöngufáni með mynd af Bjarna þegar leikmenn og dómarar ganga inn á völlinn. Systkini Bjarna verða í stúkunni og segist Sonja vonast til að sjá sem flesta KR-inga og annað knattspyrnuáhugafólk sem kunni að meta framlag Bjarna Fel til íslenskrar knattspyrnu.