Vegfarandi sem átti leið um Gilsfjörð, sem skilur á milli Vesturlands og Vestfjarða fyrir botni Breiðafjarðar, varð var við það þegar háhyrningur hafði siglt í strand. Hann segir ferðamenn hafa safnast saman í kringum dýrið.
Vegfarandinn gerði ráð fyrir því að um ungt dýr væri að ræða, það væri lítið. Ljóst er að háhyrningurinn ungi hefur ekki gætt að sjávarföllum og áður en hann fékk við ráðið hafði flætt undan honum. Háyrningurinn er enn á lífi.

Sjöfn Sæmundsdóttir er í Gilsfirði og hefur hún ásamt öðrum hlúið að dýrinu.
„Við erum búin að setja teppi yfir hana og erum að sækja sjó í fötur. Það er ekki mikið tjón eða neitt þannig að hún á alveg góðar lífslíkur. Öndunin er fín að sögn hvalasérfræðinga. Það er ekki hægt að bjarga henni fyrr en níu i kvöld, þá ætlum við að byrja að setja stroffur og baujur og svona ýmislegt. Svo ætlum við að reyna að bera hana aðeins,“ segir Sjöfn.
Hún segist vera bjartsýn. Búið sé að færa grjót og annað lauslegt til að auðvelda aðgengi að dýrinu og leiðin út að sjó sé tiltölulega greið. Björgunarsveitin á svæðinu muni sjá um aðgerðir í kvöld þegar það flæðir að.