Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að talsverð rigning verði á austanverðu landinu, en mun minni úrkoma annars staðar og lengst af þurrt sunnan- og vestanlands.
„Þegar líður á daginn hvessir einnig á Suðausturlandi og þá einkum í Öræfum.
Dregur talsvert úr vindi og úrkomu seint í kvöld og nótt, en áfram strekkings norðaustanátt á morgun og væta á köflum fyrir norðan og austan. Eins kólnar smám saman og viðbúið að gráni í fjöll þar sem úrkomu gætir.
Gular veðurviðvaranir vegna rigningar eru í gildi fyrir Austurland og Austfirði út daginn í dag. Vegna aukinnar hættu á aurskriðum og tjóni á mannvirkjum er í gildi appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði til miðnættis,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðaustan 10-18 m/s, en hægari með kvöldinu. Lítilsháttar rigning á Norður- og Austurlandi, en annars léttskýjað. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast syðst.
Á fimmtudag: Norðlæg átt, 8-15 m/s og smáskúrir eða él, hvassast austast, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti 1 til 8 stig yfir daginn, mildast syðst, en líkur á næturfrosti.
Á föstudag: Norðankaldi, skúrir eða él fyrir norðan og austan, en annars þurrt að kalla. Svalt í veðri, en mildara syðst.
Á laugardag (haustjafndægur): Austlæg eða breytileg átt, skýjað og dálítil væta, einkum sunnan- og vestanlands. Hlýnar dálítið.
Á sunnudag: Norðaustanátt og rigning með köflum, en léttskýjað suðvestantil. Hiti 1 til 6 stig.
Á mánudag: Útlit fyrir fremur kalda norðanátt. Dálítil él fyrir norðan, væta austast, en bjartviðri sunnan- og vestanlands.