Innlent

Hildur nýr þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hildur tekur við formennsku af Óla Birni Kárasyni.
Hildur tekur við formennsku af Óla Birni Kárasyni. Vísir/Vilhelm

Hildur Sverrisdóttir varð í dag nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum. Þar segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

Hildur tekur við formennsku af Óla Birni Kárasyni, sem óskaði eftir því að víkja úr sæti formanns. 

„Þetta bar brátt að, gagnvart okkur flestum í þingflokknum, en Óli Björn hafði íhugað þetta í einhvern tíma og vildi fá að óska eftir því að fá að stíga úr þessu hlutverki. Hann er blessunarlegi ekkert að hætta í þingflokknum, hann vill bara hætta kannski í þessu hlutverki til að geta einbeitt sér að öðrum verkefnum í pólitíkinni,“ sagði Hildur í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

q

Hún sagði jafnframt að missir yrði af Óla Birni úr hlutverkinu. 

„Hann var mjög farsæll hér á þinginu, bæði hjá samstarfsflokkunum og stjórnarandstöðunni líka. Þannig að þetta verða einhver fótspor sem ég þarf að stíga í, en ég er til í slaginn,“ segir Hildur. Hún hafi ekki þurft að hugsa sig tvisvar um að taka við hlutverkinu.

Nefndarformennskan ekki verið afgreidd

Fyrir liggur að stokkað verður upp í formennsku þingnefnda fyrir veturinn. Þannig fær Sjálfstæðisflokkurinn formennsku utanríkismálanefndar, en Bjarni Jónsson þingmaður VG hefur gegnt þar formennsku. Hildur segir ekki liggja fyrir hver fær formennsku og í hvaða nefnd.

„Ég taldi í raun rétt, þar sem þessar vendingar ber svona brátt að, að við tækjum okkur nokkra daga til þess að setjast aðeins betur yfir þetta. Það mun liggja fyrir fyrir eða um helgina,“ segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×