Innlent

Sex í fanga­geymslum eftir nóttina og tölu­verðum fjár­munum stolið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óvenju margir gistu fangageymslur vegna vímuaksturs í nótt.
Óvenju margir gistu fangageymslur vegna vímuaksturs í nótt. Vísir/Vilhelm

Sex gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið, þar af fjórir vegna aksturs undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Fleiri voru handteknir vegna aksturs undir áhrifum en sleppt eftir blóðsýnatökur.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsin og næturinnar.

Tveir voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna eftir að tilkynning barst um að þeir hefðu ekið á tré á Laugavegi. Til stendur að ræða við þá þegar runnið er af þeim.

Annar var handtekinn við bifreið sína eftir að tvær tilkynningar höfðu borist um ökumanninn, sem var sagður hafa ekið á og stungið af. Þá hringdi einn ökumaður sjálfur í lögreglu og greindi frá því að hann hefði ekið á en þegar mætt var á vettvang vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum.

Einn var stöðvaður við akstur sem grunur leikur á að hafi dvalið of lengi inni á Schengen-svæðinu og var hann handtekinn. Málið er í rannsókn.

Ein tilkynning barst í nótt vegna innbrots og þjófnaðar í fyrirtæki. Talið er að töluverðum fjármunum hafi verið stolið. Það mál er einnig í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×