Fótbolti

Óskar eftir pössun fyrir krókódílinn sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Kent er mikill dýraáhugamaður.
Ryan Kent er mikill dýraáhugamaður. vísir/getty

Það er alvanalegt að fótboltamenn fái einhvern til að passa börnin sín. Öllu sjaldgæfara er að þeir fái einhvern til að passa gæludýrin sín, hvað þá ef það er krókódíll.

Samkvæmt fréttum frá Tyrklandi hefur Ryan Kent, leikmaður Fenerbahce, auglýst eftir einhverjum til að passa krókódílinn sinn.

Kent er búinn að koma sér fyrir í Istanbúl eftir fimm ár í Glasgow þar sem hann lék með Rangers. Hann ætlar að bjóða þeim sem er tilbúinn að passa krókódílinn um hálfa milljón á mánuði í laun og heilsutryggingu.

Kent hefur mikinn áhuga á dýrum og samkvæmt liðsfélaga hans hjá Rangers, James Tavernier, átti hann tvo krókódíla meðan hann lék með liðinu. Þá gaf hann samherja sínum hjá Rangers, Nikola Katic, eitt sinn lítinn snák í jólagjöf.

Kent, sem er 26 ára, er upppalinn hjá Liverpool en lék aðeins einn bikarleik með aðalliði félagsins. Hann hefur skorað eitt mark í fjórum leikjum fyrir Fenerbahce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×