Fjármálaráðherra boðaði í síðustu viku áform ríkisstjórnarinnar um hagræðingu í ríkisrekstri. Hægt yrði á útgjöldum ríkisins um sautján milljarða króna á árinu 2024 og þar af yrði dregið úr útgjöldum vegna launa um fimm milljarða.
Skoða þurfi nýja nálgun
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir mikilvægt að að verkefni af þessari stærðargráðu verði unnið með faglegum hætti. „Og mögulega skoða nýja nálgun því að oft hefur það gerst að við hagræðingu í ríkisrekstri þá er farið með niðurskurðarhníf á verkefni án þess að það sé fagleg eða málefnaleg rök fyrir hvar er skorið niður,“ segir Kolbrún.
Horfa til skuldbindinga
Samráð sé vænlegra til árangurs. „Ef að niðurskurður og hagræðing í ríkisrekstri er unnin í breiðu samráði innanvert í stofnunum og í kerfinu þá eru líkur á því að niðurstaðan verði þess eðlis að það verði samstaða um hana,“ segir Kolbrún jafnframt.
Horfa þurfti til allra skuldbindinga. „Það eru ákveðnir þættir sem við erum búin að skuldbinda okkur um. Til dæmis varðandi umhverfismál, þar held ég að séu hagræðingartækifæri sem mér finnst mikilvægt að við tökum breitt samtal um,“ segir hún jafnframt. Það sé nýr þáttur sem horfa þurfti til í rekstri. „Ekki eingöngu ríkisrekstri heldur almennum rekstri fyrirtækja og heimila og þarna held ég að geti legið tækifæri,“ segir Kolbrún.