Veður

Víða von á bjart­viðri og hiti gæti náð tuttugu stigum

Atli Ísleifsson skrifar
Um helgina má búast við vætusömu veðri, einkum sunnan og vestantil.
Um helgina má búast við vætusömu veðri, einkum sunnan og vestantil. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægri, norðlægri eða breytilegri átt í dag, en norðan kalda austast á landinu. Víða er von á bjartviðri, en austantil verður skýja með dálítilli vætu, auk þess sem líkur eru á stökum síðdegisskúrum syðst.

Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að áfram verði hlýtt í veðri sunnan- og vestanlands, og gæti hiti þar náð allt að tuttugu stigum við bestu aðstæður. Það verði þó aðeins svalara veður fyrir norðaustan.

„Á morgun og verður áfram rólegt og hlýtt veður, og á föstudag gæti hiti farið yfir 20 stig víða á landinu. Um helgina má búast við vætusömu veðri, einkum sunnan og vestantil,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Hæg breytileg átt. Skýjað austantil en þurrt að kalla, annars víða bjartviðri. Þokubakkar við norður- og austurströndina. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast inn til landsins.

Á föstudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt, en gengur í sunnan 5-13 m/s vestast síðdegis og fer að rigna. Þykknar smám saman upp en lengst af bjart fyrir austan. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á laugardag: Suðlæg átt 3-10, með rigningu eða súld, jafnvel talsverð vestantil um kvöldið, en úrkomuminna norðaustan- og austanlands. Áfram hlýjast norðaustantil, en heldur svalara sunnantil.

Á sunnudag: Vestlæg átt. Rigning eða súld, en dregur úr úrkomu síðdegis. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á mánudag: Norðlæg átt og víða dálítil væta. Kólnar fyrir norðan en hlýrra sunnantil.

Á þriðjudag: Útlit fyrir hæga breytilega átt og víða bjartviðri. Milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×