„Í hálsmáli treyjunnar stendur: Nú! er góður tími. Línan var valin af fjölskyldu Svavars Péturs og vísar í lag hans sem ber það heiti. Þá er kóróna Prins Póló staðsett fyrir ofan Víkingsmerkið á treyjunni þar sem venjulega er stjarna,“ segir í tilkynningu frá Víking um málefnið.
Börn Prins Póló í Víking
„Hugmyndin fæddist í haust þegar pælingar fóru af stað varðandi góðgerðartreyju. Nafn Prins Póló kom fljótlega upp en hann á börn sem æfa í Víking, það var því tenging sem við við vildum skoða. Í kjölfarið höfðum við samband við eiginkonu tónlistarmannsins, Berglindi Häsler, sem leist vel á samstarfið,“ segir Halldór Smári Sigurðsson leikmaður Víkings, hugmyndasmiður og verkefnistjóri verkefnisins sem leitaði leiða um samstarf við hönnuð sem væri einstök og ótengd knattspyrnu.
„Hildur Yeoman var efst á blaði hjá mér. Í fyrsta lagi finnst mér geggjað að hún hanni eingöngu kvenmannsföt, auk þess eru mynstrin og grafíkin í flíkunum hennar ótrúlega falleg. Við vorum viss um að þau myndu sóma sér vel á treyju,“ bætir hann við.


Fjölskyldan valdi Ljósið
Þá kemur fram að fjölskylda Svavars lagði til að ágóði verkefnisins færi til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Treyjan kostar 15.900 krónur og fer í sölu þann 10. ágúst. Salan hefst í vefverslun Víkings sem opnar á miðnætti á morgun og í verslun Hildar Yeoman á Laugavegi 7 frá klukkan 17 til 19.
Þá kemur fram að karla- og kvennalið Víkings munu spila einn leik í treyjunni og jafnframt mun kvennaliðið hita upp í treyjunni fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Breiðablik þann 11. ágúst næstkomandi.
Á meðfylgjandi myndum má sjá listamenn klæðast treyjunni ásamt leikmönnum meistaflokka Víkings.


Einvalalið fagfólks á bakvið tjöldin
Fjöldi fólks kom að verkefninu en þar má nefna Guðjón Guðmundsson, Sverrir Geirdal, sem jafnframt hannaði logo verkefnisins og Guðmundur Auðunsson. Berglaug Petra Garðarsdóttir sá um ljósmyndun og Hulda Halldóra Tryggvadóttir um stíliseringu. Þá hannaði Kristófer Karl Jensson og útbjó efni á samfélgsmiðlum og borgarskjám.


Láta gott að sér leiða
Þetta er ekk í fyrsta sinn sem Víkingur, Hildur Yeoman og Prins Póló koma að því að styrkja góð málefni. Frá árinu 2021 hafa Víkingur og þátttakendur á Hamingjumóti Petit látið gott af sér leiða. Fyrsta árið var Umhyggja, félag langveikra barna, styrkt með milljón króna framlagi. Árið 2022 hélt félagið áfram og styrkti Barnaspítala Hringsins um sömu fjárhæð.
Í ár mun félagið styrkja Ljónshjarta, sem eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og börnum sem misst hafa foreldri. Útlit er fyrir að upphæðin verði sú sama og undanfarin ár. Með þessu framtaki vill Víkingur halda áfram að láta gott af sér leiða og stuðla að skemmtilegra og hamingjusamara samfélagi.
