Innlent

Há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytið flytur í Norður­hús

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ríkið keypti norðurhluta Norðurhúss af Landsbankanum fyrir um sex milljarða í september á síðasta ári.
Ríkið keypti norðurhluta Norðurhúss af Landsbankanum fyrir um sex milljarða í september á síðasta ári. Stjórnarráðið

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið flytur í haust í framtíðarhúsnæði ráðuneytisins í Norðurhúsi við Austurbakka. Ráðuneytið mun þar deila húsnæðinu með utanríkisráðuneytinu og Landsbankanum.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

Þar segir einnig að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafi frá stofnun haft tímabundna skrifstofuaðstöðu í húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins í Arnarhvoli. Leitað hafi verið að húsnæði fyrir ráðuneytið frá byrjun árs 2022 og hefur Húsnæðisnefnd Stjórnarráðsins farið fyrir þeirri vinnu. 

Vegna hás leigukostnaðar í nágrenni við Stjórnarráðsreitinn hafi verið fallið frá áformum um leiguhúsnæði og þess í stað ákveðið að ráðuneytinu yrði fundinn staður í húsnæði í eigu ríkisins. Áætlað er að með þessu sparist yfir fimmtíu milljónir króna í leigukostnað árlega. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið mun því flytja í Norðurhús ásamt utanríkisráðuneytinu, en ríkið gerði á síðasta ári samning við Landsbankann um kaup á hluta nýs húsnæðis bankans, svokölluðu Norðurhúsi, fyrir sex milljarða.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið verður staðsett á annarri hæð en utanríkisráðuneytið á fyrstu, þriðju og fjórðu hæð. Þá verða fundarherbergi samnýtt milli ráðuneyta sem og sameiginleg rými sem eru staðsett á fyrstu hæð hússins. Þetta felur í sér talsvert hagræði en stefnt er að því að bæði ráðuneytin hefji störf á nýjum stað í október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×