Í bókun bæjarráðs frá bæjarráðsfundi síðastliðinn föstudag óskar ráðið eftir því í ljósi ítrekaðra kvartana að heilbrigðisfulltrúi Norðurlands vestra komi á fund ráðsins og kynni fyrir ráðinu eftirfylgniáætlun embættisins. Norlandia er hausaþurrkunarverksmiðja og hafa íbúar reglulega kvartað undan ólykt undanfarin ár.
Bæjarráð Fjallabyggðar segir í bókun sinni að mikilvægt sé að grunnur verði lagður að því að tryggja sanngjarna málsmeðferð gagnvart bæði íbúum og starfsemi Norlandia.
Vísir hefur ekki tali af Ásgeir Loga Ásgeirssyni, eiganda Norlandia vegna málsins.
Ekki farið fiskur í fyrirtækið síðan á fimmtudag
Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, segir í samtali við Vísi að farið hafi verið í talsverðar mengunarvarnaraðgerðir og endurbætur hjá fyrirtækinu sem hann telur hafa heppnast vel.
Mótor hafi hins vegar bilað hjá fyrirtækinu í vor með tilheyrandi lyktarmengun. Lítið þol hafi verið fyrir umhverfisáhrifum af hálfu starfsemi fyrirtækisins nú.
„Núna liggur starfsemin niðri og það hefur ekki farið fiskur inn í fyrirtækið síðan á fimmtudag,“ segir Sigurjón. Starfsemi muni líklega ekki hefjast aftur fyrr en í ágúst.
Þriðja eftirlitsferðin í dag
Sigurjón kveðst hafa farið tvisvar í eftirlit á Ólafsfjörð í sumar. 15. júní og svo aftur 3. júlí. Þriðja eftirlitsferðin verður farin í dag 12. júlí.
„Þá fann ég enga lykt á góðum tíma. Ég vissi af því að það hafði bilað vifta og það getur vel verið að kvartanir berist vegna þess að fólk er búið með allt þol gagnvart þessu,“ segir Sigurjón.
Hann segir að stofnuninni hafi einnig borist kvartanir vegna lyktar á Siglufirði, þá vegna starfsemi Primex, fyrirtækis sem framleiðir kítín og kítósan úr rækjuskel.
„Ástandið í Ólafsfirði núna er hátíð miðað við hvernig það var fyrir tveimur árum. Almennt má segja að þol fólks gagnvart svona lykt hefur minnkað.“