Handbolti

ÍBV sækir liðsstyrk úr Garðabænum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Britney Cots er búin að skipta yfir til ÍBV í Olís-deildinni.
Britney Cots er búin að skipta yfir til ÍBV í Olís-deildinni. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV hefur fengið góðan liðsstyrk í Olís-deild kvenna í handknattleik en liðið samdi í dag við Britney Cots sem kemur frá Stjörnunni.

Cots hefur leikið hér á landi síðan árið 2018 og lék í þrjú tímabil með FH áður en hún skipti yfir til Stjörnunnar sumarið 2021.

Cots á að baki landsleiki fyrir Senegal og kom við sögu í 26 leikjum hjá Stjörnunni í vetur og skoraði í þeim 60 mörk. Hún eykur breiddina fyrir utan hjá Eyjaliðinu sem náði í tvo af þremur stóru titlum vetrarins en tapaði í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins gegn Val.

Það er athyglisvert við félagaskipti Cots til ÍBV að fyrir tæpum tveimur árum var hún síður en svo sátt með Sigurð Bragason, þáverandi og núverandi þjálfara ÍBV, eftir atvik í leik FH og ÍBV.  Hún sakaði hann þá um að hafa ýtt við sér inni á vellinum og var verulega ósátt.

Í kjölfarið fór málið á borð HSÍ sem ákvað að aðhafast ekkert í málinu. Leikmenn ÍBV gáfu frá sér yfirlýsingu um málið þar sem þær gagnrýndu fréttaflutning af því harðlega. 

Ljóst er að stríðsöxin hefur verið grafin og koma Cots er góður liðsstyrkur fyrir Eyjaliðið sem greinilega ætlar sér áfram stóra hluti á næstu leiktíð en Cots er þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við ÍBV nú í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×