Veður

Hita­tölur jafn­vel ívið hærri en í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Á morgun er minniháttar breyting á veðrinu en síðan er að sjá að vindur verði suðlægari á föstudag
Á morgun er minniháttar breyting á veðrinu en síðan er að sjá að vindur verði suðlægari á föstudag Vísir/Vilhelm

Vindur verður suðaustlægur á suðvestanverðu landinu í dag. Það Það þykknar upp og sums staðar verður einhver úrkomuvottur, en áfram verður léttskýjað að mestu norðan- og austantil.

Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar þar sem fram kemur að hitatölur verði jafnvel ívið hærri en í gær. Hiti verður á bilinu tíu til 23 stig að deginum, hlýjast eystra.

„Á morgun er minniháttar breyting á veðrinu en síðan er að sjá að vindur verði suðlægari á föstudag. Það mun litlu breyta hvað varðar, hitastig, skýjahulu og vindhraða svo veðurlag næstu daga er ansi keimlíkt,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðaustlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og að mestu skýjað með smávegis vætu, en bjart norðaustantil og líkur á síðdegisskúrum. Hiti 10 til 23 stig að deginum, hlýjast eystra.

Á föstudag og laugardag (lýðveldisdagurinn): Suðlæg átt 3-8 m/s. Skýjað Vestanlands og lítilsháttar væta. Víða bjart austantil, en líkur á síðdegisskúrum inn til landsins og þokusúld við ströndina. Áfram hlýtt í veðri, einkum austantil.

Á sunnudag: Breytileg átt 3-8 m/s og væta með köflum. Hiti 8 til 20 stig, svalast við norðan- og vesturströndina, en hlýjast í innsveitum austanlands.

Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt, skýjað og víða dálítil væta. Fer kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×