Veður

Sunnan kaldi og víða rigning

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er að hiti á landinu verði á bilinu átta til átján stig í dag.
Spáð er að hiti á landinu verði á bilinu átta til átján stig í dag. Vísir/Vilhelm

Skil mjakast nú austur yfir landið og má reikna með sunnan og suðvestan kalda eða strekkingi í dag og víða rigningu eða súld. Það dregur þó úr vindi og úrkomu vestanlands með morgninum og er gert ráð fyrir dálitlum skúrum þar eftir hádegi.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði hins vegar lengst af þurrt um landið norðaustanvert. Hiti verður á bilinu átta til átján stig, hlýjast norðaustantil.

„Vestan og suðvestan 5-13 m/s á morgun og stöku skúrir, en dálítil rigning austast á landinu fram eftir degi. Á Suðurlandi gæti þó allvíða orðið þurrt og bjart. Það kólnar heldur, hiti yfirleitt á bilinu 7 til 15 stig, mildast suðaustantil.

Á sunnudag er svo útlit fyrir bjart veður víða um land, en þó gæti blásið nokkuð hraustlega á norðanverðu landinu. Hlýnar aftur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Vestan og suðvestan 5-13 m/s og stöku skúrir, en bjart með köflum og yfirleitt þurrt á Suðurlandi. Hiti 7 til 15 stig, mildast suðaustantil.

Á sunnudag: Suðvestan 5-15, hvassast norðvestanlands. Skýjað með köflum vestantil, annars víða bjartviðri. Hiti 8 til 13 stig, en 12 til 20 stig um landið austanvert.

Á mánudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-10 og víða léttskýjað, en skýjað með köflum vestast á landinu. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast inn til landsins.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Hlý suðlæg átt og súld eða dálítil rigning með köflum, en lengst af þurrt á Norðaustur- og Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×