Innlent

Slags­mál, „blæðandi“ ein­staklingar og yfir hundrað notaðar sprautu­nálar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur útköllum í gær þar sem tilkynnt var um „blæðandi“ einstaklinga. Í öðru tilvikinu hafði einstaklingur verið stunginn með hníf og var hann fluttur á bráðamóttöku en gerandinn handtekinn.

Í hinu tilvikinu var um að ræða ölvaðan einstakling sem sagðist bara vilja fara heim og gekk sinnar leiðar eftir að sjúkralið hafði gert að sárum hans.

Lögreglu barst einnig tilkynning þar sem óskað var aðstoðar eftir að yfir hundrað notaðar sprautunálar fundust á víðavangi. Lögregla fór á vettvang og fjarlægði nálarnar.

Þá var tilkynnt um slagsmál í póstnúmerinu 108 en þegar dyrnar voru opnaðar þar sem slagsmálin voru sögð hafa átt sér stað hrundu tveir einstaklingar í jörðina. Þeir fengu fyrirmæli um að hætta að slást, sem þeir gerðu. 

Báðir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu en hvorugur var hæfur til skýrslutöku sökum ölvunar.

Önnur tilkynning barst um slagsmál í póstnúmerinu 221 og er það mál í rannsókn. Þá var tilkynnt um tvo einstaklinga sem voru að spreyja á skólabyggingu í Kópavogi en þar reyndist um að ræða ungmenni sem voru að kríta.

„ngmennum hrósað fyrir að nota krítar en ekki varanlega málningu,“ segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×