Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að það verði suðvestlæg átt í dag, fimm til þrettán metrar á sekúndu, og hvassast á Vestfjörðum. Skýjað með dálítilli vætu vestanlands en bjart eystra.
Gert er ráð fyrir að hiti verði á bilinu átta til átján stig, hlýjast á Suðausturlandi.
„Mjög svipað veður verður á morgun til að byrja með en vaxandi sunnanátt og fer að rigna vestanlands seinnipartinn, 8-13 m/s annað kvöld.
Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og rigning eða súld um vestanvert landið á fimmtudag og föstudag en hægari og úrkomuminna austantil. Hiti breytist lítið. Dregur úr úrkomu um kvöldið.
Vestlæg eða breytileg átt og úrkomulítið á laugardag og léttir til, hiti 8 til 13 stig. Svo fylgja nokkrir dagar með fremur hægum vindum, bjartviðri og hlýnandi veðri,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Suðvestlæg átt 3-10 m/s, skýjað og úrkomulítið, en víða bjartviðri um landið austanvert. Hiti 11 til 17 stig að deginum. Sunnan 5-13 og fer að rigna vestantil um kvöldið.
Á fimmtudag: Sunnan og suðvestan 8-15 og rigning með köflum. Heldur hægari vindur og úrkomuminna um landið austanvert. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á föstudag: Suðlæg átt 8-15 og rigning eða súld, og hiti 8 til 13 stig, en þurrt og víða bjart um landið norðaustanvert og hiti að 18 stigum á þeim slóðum. Styttir upp um kvöldið.
Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og skýjað með köflum en léttir til síðdegis. Hiti 8 til 13 stig.
Á sunnudag: Hæg vestlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Hiti yfirleitt 9 til 14 stig yfir daginn.
Á mánudag: Útlit fyrir vestlæga átt 3-10 og bjart veður í flestum landshlutum. Hiti 12 til 17 stig yfir daginn.