Fótbolti

Loks sigur hjá Rosen­borg og Birkir kom inn sem vara­maður

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason kom inn af bekknum hjá Viking í dag.
Birkir Bjarnason kom inn af bekknum hjá Viking í dag. Twittersíða Viking.

Kristall Máni Ingason kom ekkert við sögu hjá Rosenborg sem vann 4-0 sigur á Ham Kam í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Fimm Íslendingar komu við sögu í leikjum dagsins.

Rosenborg hefur ekki átt sjö dagana sæla í norska boltanum að undanförnu og tapaði meðal annars fyrir Stjördals-Blink í bikarnum á dögunum en liðið er í þriðju efstu deild í Noregi.

Norska stórliðið vann hins vegar í dag öruggan 4-0 sigur á liði Ham Kam á heimavelli. Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham Kam í dag en var tekinn af velli á 61. mínútu þegar staðan var 3-0. Kristall Máni Ingason sat allan tímann á varamannabekk Rosenborg.

Ari Leifsson var í byrjunarliði Strömgodset sem tapaði á heimavelli gegn Haugesund í dag. Lokatölur 2-1 en Ari spilaði í hægri bakvarðastöðunni hjá Strömgodset og var tekinn út af á 82. mínútu. Strömgodset er í 14. sæti deildarinnar og missti Haugesund upp fyrir sig með tapinu.

Stórdramatískur markaleikur var spilaður í Stafangri þar sem Viking tók á móti Molde. Patrik Sigurður Gunnarsson þurfti að sækja boltann fjórum sinnum í netið en hann lék í marki Víking.

Birkir Bjarnason kom inn sem varamaður hjá Viking skömmu eftir að Molde hafði jafnað metin í 3-3 á 75. mínútu. Sondre Bjorshol, leikmaður Viking, fékk rautt spjald skömmu síðar og Molde tryggði sér sigurinn á þriðju mínútu uppbótartíma þegar Ola Brynhildsen skoraði. Lokatölur 4-3 en Viking er í 7. sæti deildarinnar með 14 stig eftir níu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×