Fuglarnir sem hafa verið að finnast dauðir undanfarið eru af ýmsum tegundum en þó ber mest á lunda og ritu. Fyrir um tíu dögum fannst aragrúi af dauðum andfuglum í fjöru í Skagafirði, í síðustu viku fannst mikið af dauðum ritum á Suðurnesjum og nú eru hundruð lunda sem liggja í valnum víðsvegar um vesturland, mest við Faxaflóa.
Mikið af lunda hefur til að mynda fundist í Kollafirði og að sögn sjónarvotts sáust fuglarnir reika um veiklulegir þar til þeir hreinlega lögðust niður og drápust. Lundastofninn hefur verið í miklum vandræðum á undanförnum árum og hefur minnkað um sjötíu prósent og því ekki gott ef fuglarnir drepast í hrönnum.

Að sögn Sölva Rúnars Vignissonar, fuglafræðings, er ómögulegt að segja til um hvers vegna fuglarnir eru að drepast.
„Við höfum verið að taka sýni úr hinum og þessum tegundum sem hafa verið að finnast dauðar og höfum ekki verið að sjá fuglaflensu í þessum dýrum. Allavega ekki í þessum ritum en svo er spurning með lundana sem hafa verið að finnast núna. Hvort það sé fuglaflensa eða eitthvað sambærilegt við það sem við höfum verið að sjá með riturnar.
Óvenjulegt sé að svo margar tegundir finnist dauðar á sama tíma.
„Við sjáum svona af og til. Fugladauða þar sem margir fuglar drepast en það er virkilega óvanalegt í þessu magni og ég man satt að segja ekki eftir svona miklum dauða af fleiri en einni tegund.“
Matvælastofnun sér um sýnatökur en stofnunin hefur ekki séð ástæðu til þess að bregðast við enn þá, Sölvi vonast þó eftir því að málið verði kannað.
„Það eru nokkrir hlutir sem þekkjast sögulega. Sérstaklega bótúlismi sem er bakteríusýking sem sest í vefi fuglanna en við vitum það ekki fyrr en við skoðum fuglana. Ég vona að MAST eða Keldur taki þetta upp á sína arma.“

Vonskuveður var á Faxaflóa í vikunni og hefur því verið velt upp hvort að mikil ölduhæð og ofsaveður gæti átt þátt í dauða dýranna. Sölvi segist frekar hneigjast að öðrum tilgátum. Lundar í góðum holdum sem sýnilega amar lítið að eru að finnast dauðir.
„Það getur vel verið að þetta sé fæðuskortur eða volk eða eitthvað slíkt en mér finnst það ólíklegt, við erum að sjá stóra pattarlega einstaklinga vera að drepast, sem er sérstakt.“