Fótbolti

Búist við að Real Madrid kynni Bellingham til leiks í næstu viku

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham gætiorðið leikmaður Real Madrid í næstu viku.
Jude Bellingham gætiorðið leikmaður Real Madrid í næstu viku. Joachim Bywaletz/DeFodi Images via Getty Images

Búast má við því að enska ungstirnið Jude Bellingham verði kynntur til leiks sem nýr leikmaður spænska stórveldisins Real Madrid í næstu viku.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Bellingham undanfarnar vikur og mánuði, en nú virðist orðið nokkuð öruggt að þessi eftirsótti leikmaður endi í röðum Real Madrid.

Það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá því að Bellingham verði að öllum líkindum kynntur til leiks sem nýr leikmaður Madrídinga í næstu viku, en miðjumaðurinn leikur í dag með Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur að aldri hefur Jude Bellingham fyrir löngu skapað sér nafn í fótboltaheiminum. Hann hóf feril sinn með uppeldisfélagi sínu Birmingham þar sem hann varð yngsti leikmaður aðalliðsins frá upphafi þegar hann lék með liðinu í enska deildarbikarnum aðeins 16 ára og 38 daga gamall.

Hann var keyptur til Dortmund árið 2020 og hefur leikið 92 deildarleiki fyrir félagið. Þá á hann einnig að baki 24 leiki fyrir enska landsliðið.

Búast má við því að Bellingham verði í eldlínunni með Dortmund er liðið tekur á móti Mainz í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar, en með sigri tryggir liðið sér þýska meistaratitilinn í fyrsta sinn í rúman áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×