Fótbolti

Tvenna frá Alexöndru í sigri á Juventus

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir reynir hér að komast frá tæklingu Alexöndru Jóhannsdóttur í leiknum í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir reynir hér að komast frá tæklingu Alexöndru Jóhannsdóttur í leiknum í dag. Vísir/Getty

Alexandra Jóhannsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fiorentina þegar liðið vann sigur á Söru Björk Gunnarsdóttur og samherjum hennar í Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. 

Alexandra og Sara Björk voru báðar í byrjunarliðum sinna liða í dag en leikurinn fór fram á heimavelli Fiorentina í Flórens. Juventus var fyrir leikinn búið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári, liðið var í öðru sæti deildarinnar með 51 stig en Fiorentina í því fjórða með 39 stig.

Fyrra mark Alexöndru í dag var fyrsta mark leiksins. Hún skoraði það á 36. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks skoraði Juventus tvö mörk á skömmum tíma og leiddi 2-1 í hálfleik. Barbara Bonansea og Lineth Beerensteyn voru þar á ferðinni.

Milica Mijatovic jafnaði metin fyrir Fiorentina á 47. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði Alexandra sitt annað mark í leiknum og kom Fiorentina í 3-2 forystu.

Alexandra og Sara Björk voru báðar teknar af velli þegar um tuttugu mínútur voru eftir en hin spænska Veronica Boquete innsiglaði 4-2 sigur heimaliðsins undir lokin með marki úr vítaspyrnu.

Lokatölur 4-2 og Fiorentina komið upp í þriðja sæti deildarinnar. Ein umferð er eftir af deildarkeppninni en Juventus á þar að auki eftir að mæta Roma í úrslitaleik bikarkeppninnar þann 4. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×