Handbolti

Bjarki og félagar björguðu jafntefli á seinustu stundu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson í leik með Veszprém.
Bjarki Már Elísson í leik með Veszprém. Veszprém

Bjarki Már Elísson og félagar hans í ungverska stórliðinu Telekom Veszprém björguðu sér fyrir horn er liðið tók á móti pólska liðinu Kielce í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum í Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lokatölur 29-29, en heimamenn í Veszprém jöfnuðu metin með seinasta skoti leiksins.

Gestirnir í Kielce byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Þrátt fyrir að heimamönnum hafi tekist að minnka muninn niður í eitt mark í nokkur skipti tókst þeim ekki að jafna og staðan var 13-16, Kielce í vil, þegar flautað var til hálfleiks og gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikurinn var öllu jafnari og heimamönnum tókst að jafna metin í fyrsta skipti í stöðunni 18-18. Ungverska liðið náði svo mest þriggja marka forskoti í stöðunni 23-20, en gestirnir jöfnuðu á ný stuttu síðar og liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks.

Enn var jafnt í stöðunni 28-28 þegar rétt tæp mínúta var eftir. Gestirnir tóku þá sitt seinasta leikhlé og náðu forsytunni á ný með marki úr víti þegar 35 sekúndur voru til leiksloka. Veszprém fékk því tækifæri til að kreista fram jafntefli og þar var það Rasmus Lauge sem reyndist hetja heimamanna þegar hann jafnaði metin þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Lokatölur urðu því 29-29 og liðin fara með jafna stöðu í seinni leikinn sem fer fram í Póllandi að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×