Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún er í stanslausri breytingu. Fátt finnst mér skemmtilegra en að sjá einhverja flík koma aftur í sviðsljósið eftir að hafa verið í dvala. Ég vil að hattar komi aftur.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Maison Margiela tabis skórnir mínir, mig hafði lengi langað í þá og að lokum stóðst ég ekki freistinguna. Ég hef aldrei séð eftir að hafa keypt þá. Ég leyfi mér að borga dýran dóm fyrir skó því ég stend með frasanum: „Þú passar ekki endilega alltaf í gallabuxurnar þínar, en þú passar alltaf í skóna þína“.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Já, ég er sjúklega smámunasamur og vanda vel hvað ég kaupi. Ég kaupi til dæmis sjaldan eitthvað sem ég ætla bara að nota einu sinni.
Þetta er reyndar lygi, ég versla mjög mikið en ég kaupi aldrei hraðtísku vörur.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi telja stílinn minn smá ólýsanlegan, hann er alls konar. Það fer allt eftir því hvernig mér líður og hvaða tímabil ég er að ganga í gegnum.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já, stílinn minn hefur breyst mjög, mjög, mjög mikið. Ég fór í gegnum öll tímabil sem hægt er að ímynda sér áður en ég fann minn persónulega stíl. Ég var einu sinni goon. Við gerum öll mistök.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Án gríns alls staðar frá.
Einn daginn gæti minn helsti innblástur verið tískusýning og hinn daginn fæ ég innblástur frá fullri ruslatunnu.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Kvartbuxur, ef þú fílar þær þá bara áfram þú en persónulega myndi ég frekar deyja.
Ég elska skyrtur með ýktum krögum og skrauti, svona lowkey sinfóníu skyrtur, bolir með opnu baki, jakkaföt, stígvél með oddhvassri tá og svo margt fleira, get hreinlega ekki nefnt allt.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftirminnilegasti flík sem ég hef klæðst var gullfallegt pils og bolur eftir vinkonu mína Rúbínu. Ég er í Skemmtinefnd Verzló og í nóvember héldum við Vælið, söngkeppni Verzló, í Hörpunni. Ég fékk að púlla upp í þessu tryllta leðursetti.
Rúbína er klikkaður hönnuður og ég mæli með að kíkja á hana.
Ég jarðaði alla í þessu fitti.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Mitt besta ráð er að klæðast því sem þú vilt og vera sama um hvað öðrum finnst, nema ef þú hatar smekkinn þinn, þá máttu reyna að vera aðeins meira eins og ég.
Hér er hægt að fylgjast með Sverri á Instagram.