Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það sé þó bót á máli að vindur sé ekki mikill og úrkoma í minna lagi. Það er þó heldur svalt. Hiti verður á bilinu eitt til átta stig að deginum, mildast suðvestanlands.
„Í dag stefnir í norðaustan 5-13 m/s seinni partinn, hvassast norðvestantil. Það þykknar heldur upp norðaustanlands, en áfram verður bjart á norðvestanverðu landinu. Sunnantil ætlar lítil lægðabóla að senda skýjað veður og dálitla vætu inn á land.
Á morgun er útlit fyrir hægari vind og stöku él norðaustanlands, skúri syðra og bjart norðvestantil. Kólnandi veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Norðan og norðaustan 3-10 m/s og dálítil él eða skúrir, en þurrt norðvestanlands. Víða vægt frost, en upp í 6 stig að deginum suðvestantil.
Á föstudag: Norðlæg átt 5-13 m/s með éljum fyrir norðan og hita undir frostmarki, en bjart syðra og frostlaust að deginum.
Á laugardag: Norðlæg átt og smáél fyrir norðan, annars bjart með köflum. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag: Útlit fyrir vaxandi austlæga átt og rigningu eða slyddu sunnanlands, annars þurrt. Hlýnar í veðri.