Handbolti

Gólfefnaframleiðandi bjargaði Kielce úr fjárhagsvandræðum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pólska stórliðið Kielce virðist vera laust úr fjárhagsvandræðum sínum. Í bili allavega.
Pólska stórliðið Kielce virðist vera laust úr fjárhagsvandræðum sínum. Í bili allavega. DAX Images/NurPhoto via Getty Images

Svo virðist sem fjárhagsvandræði pólska stórliðsins Kielce séu úr sögunni í bili eftir að samningar náðust við gólfefnaframleiðandan Barlinek um að verða stærsti styrktaraðili félagsins.

Fjárhagsstaða Kielce hafði verið vægast sagt slæm undanfarna mánuði eftir að helsti styrktaraðili félagsins, drykkjavörurisinn Van Pur, sagði upp samningi sínum við liðið í lok síðasta árs.

Einhverjir höfðu áhyggjur af því að Kielce gæti hreinlega ekki klárað tímabilið, en stjórn félagsins tók ákvörðun um það í janúar að tímabilið yrði klárað og framtíð félagsins yrði ráðin síðar.

Nú hefur félagið náð samningum við pólska gólfefnaframleiðandan Barlinek um að verða einn helsti styrktaraðili liðsins. Eins og tíðkast í Póllandi tekur Kielce því upp nafn síns stærsta styrktaraðila og heitir nú Barlinek Industria Kielce.

Stuðningsmenn þessa sigursæla liðs geta því andað léttar, en þegar fjárhagsvandræði félagsins stóðu hvað hæst höfðu margir áhyggjur af því að margir af bestu leikmönnum liðsisn myndu róa á önnur mið. Nú þykir hins vegar nánast öruggt að menn á borð við Dujshebaev-feðgana haldi kyrru fyrir, en Talant Dujshebaev er þjálfari Kielce og synir hans, Alex og Daniel, leika með liðinu. Þá er Selfyssingurinn Haukur Þrastarson samningsbundinn Barlinek Industria Kielce fram á mitt árið 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×