Mennirnir heita Ed Jackson, Darren Edwards og Niall McCann. Allir lentu þeir í alvarlegum slysum og sködduðu á sér mænuna. Í ferðinni safna þeir áheitum fyrir góðgerðafélagið Millimetres to Mountains, sem Jackson kom á fót. En félagið hjálpar fólki að komast yfir stór áföll í lífinu með því að fara í ævintýraferðir. Stefnan er sett á að safna 155 þúsund pundum, eða rúmlega 26 milljón krónum.
Þremenningarnir komu til landsins í nóvember síðastliðnum til að æfa sig fyrir gönguna. En einn af þeim, Edwards, er algerlega lamaður fyrir neðan brjóst. Hinir eru með takmarkanir í útlimum.
Ruðningskappi skall á sundlaugarbotni
Ed Jackson er 34 ára gamall og var atvinnumaður í ruðningi. Spilaði hann meðal annars fyrir hið fornfræga lið Wasps, sem seinna fór í gjaldþrot, og fyrir yngri landslið Englands. Hann skaddaðist á mænu þegar hann dýfði sér ofan í sundlaug í aprílmánuði árið 2017 og lenti á höfðinu á botninum.

Jackson hefur ekki látið fötlunina stöðva sig og hefur meðal annars klifið fjallið Mera Peak í Himalayafjöllunum síðan.
7 maraþon á 7 dögum í 7 heimsálfum
Eftir að Jackson slasaðist kynntist hann Edwards og McCann. Edwards slasaðist alvarlega í fjallgöngu í Wales í ágústmánuði árið 2016. Hann féll rúma 10 metra og hefur síðan verið lamaður frá brjósti og niður úr.

Rétt eins og Jackson hefur Edwards ekki látið slysið stöðva sig. Fyrr á þessu ári keppti Edwards í 7 maraþonhlaupum með handhjóli á 7 dögum í 7 heimsálfum.
Fallhlífarstökk endaði á kletti
Niall McCann hryggbrotnaði og skaddaði mænuna í fallhlífarslysi árið 2016. En hann skall á kletti á fjallinu Pen Y Fan í Wales á 80 kílómetra hraða á klukkustund og féll til jarðar.

McCann er mikill áhugamaður um ævintýraferðir á köldum stöðum og hefur meðal annars farið á skíðum yfir Grænlandsjökul, hjólað yfir Himalayja fjöllin og róið á kanó á Yukon fljótinu í Kanada og Alaska. Ferðin yfir Vatnajökul er hins vegar hans fyrsta síðan hann lenti í slysinu.