Mark Dagnýjar kom eftir tæplega hálftíma leik en hún skoraði þá með góðum skalla eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur. Dagný var einnig á skotskónum síðast þegar þessi lið mættust en það var á She Believe-mótinu í febrúar á síðasta ári.
Dagný hefur nú skorað 38 mörk fyrir íslenska landsliðið en hún er markahæsti leikmaðurinn í hópnum sem tekur þátt í þessu verkefni.
Með þessu marki varð Dagný næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska kvennalandsliðins en hún skaust upp fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur með skallanum.
Það er hins vegar ansi langt í markahæsta leikmanninn í sögunni, Margréti Láru Viðarsdótttur, sem skoraði 79 mörk á glæsilegum landsliðsferli sínum.
Lið Íslands í leiknum var þannig skipað:
Telma Ívarsdóttir - Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Sandra María Jessen 80. mín), Glódís Perla Viggósdóttir (Guðrún Arnardóttir 46. mín), Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Alexandra Jóhannsdóttir (Selma Sól Magnúsdóttir 63 mín), Dagný Brynjarsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Hildur Antonsdóttir 86. mín) - Sveindís Jane Jónsdóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir 46. mín), Amanda Andradóttir (Hlín Eiríksdóttir 63. mín).

Gunnhildur Yrsa spilaði í dag tímamótaleik en þetta var 100. leikurinn hennar og var hún fyrirliði íslenska liðsins í dag.
1 0 0 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur í dag sinn hundraðasta A-landsleik og er af því tilefni fyrirliði liðsins í dag.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) April 7, 2023
Cap number 100 for Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir today!#dottir pic.twitter.com/PWZ28NhZsC

Þetta var fyrri vináttulandsleikur Íslands í þessum landsleikjaglugga en liðið mætir Sviss í Zurich á þriðjudaginn kemur.
