„Ég er hingað komin, rétt einn sprettinn, til að ávarpa þann hrylling sem er að gerast í mínu sveitarfélagi, það er áform um fiskeldi í Seyðisfirði,“ segir Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, í upphafi ræðunnar á Alþingi í dag. Ræðuna flutti Jódís undir liðnum Störf þingsins.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra staðfesti á dögunum tillögu svæðisráðs Austfjarða að strandsvæðisskipulagi fyrir Austfirði. Jódís furðar sig á því að fiskeldi í Seyðisfirði sé enn á áætlun þegar 75% íbúa sveitarfélagsins er á móti því.
„Það er með ólíkindum að hvorki stjórnvöld, sveitarfélög eða nokkur geti hlustað á 75% íbúanna sem hafna þessu. Það getur ekki staðist að þessu verði þrýst í gegn að kröfu erlendra fjárfesta. “
Þingmenn verði að standa í lappirnar
Jódís gagnrýnir þingmenn fyrir að tala um vandamál þjóðarinnar en á sama tíma séu þeir einungis að hlaupa á eftir kröfu um arðsemi.
„Hér koma þingmenn, dag eftir dag, og tala um örmagna þjóð, uppgefin ungmenni í menntaskólum, slæma stöðu geðheilbrigðismála, staðan er sú að við erum öll að hlaupa á eftir einhverri arðsemiskröfu. Það þarf að keyra yfir lýðræðið, það þarf að keyra yfir allt til þess bara að mæta þessari þörf.“
Ræðu Jódísar í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Hún biðlar þá til þingmanna Norðausturkjördæmis að standa í lappirnar með vilja íbúa Seyðisfjarðar:
„Sameining Múlaþings byggði að því að hvert sveitarfélag fengi að halda sínum séreinkennum. Á Seyðisfirði hefur árum og áratugum saman verið unnið að uppbyggingu menningar, lista, náttúruverndar og svo mörgu öðru. Það er talað um fjölbreytt atvinnulíf, í Seyðisfirði er fiskvinnsla, þar er landbúnaður, það er engin eftirspurn eftir fiskeldi nema frá erlendum fjárfestum og sveitarstjórnarfólk og við hér á þingi verðum að standa í lappirnar til að stoppa þetta.“