Þá förum við yfir daginn á Alþingi með Heimi Má. Tekist var á um innflutning dómsmálaráðherra á líkkistum – og svo voru fjölmiðlar til umræðu. Þingmaður Vinstri grænna segir mikilvægt að tryggja fjölmiðlafólki öruggt starfsumhverfi. Fjölmörg dæmi væru um að fjölmiðlafólk væri hindrað í störfum sínum og því jafnvel ógnað. Menningar- og viðskiptaráðherra segir fjölmiðlaáætlun í mótun.
Við hittum nemendur og skólastjóra Listdansskóla Íslands, sem að öllu óbreyttu verður lagður niður. Skólastjóri er harðorður, sakar stjórnvöld um að mismuna börnum eftir vali á tómstundum. Þá spyr hann hvort áhugaleysi ráðamanna skrifist á það að námið stunda aðallega stúlkur.
Svo er það mikið hitamál í dag, meintur rasismi í Íslensku óperunni. Óperustjóri hafnar með öllu ásökunum um rasisma vegna leikgerva í sýningunni Madame Butterfly. Hár og búningar séu notaðir til að fanga tíðaranda þessa klassíska verks.
Þá flytur Kristján Már okkur nýjustu fréttir af loðnulöndun uppi á Skaga í beinni útsendingu og Magnús Hlynur hlýjar sér í gróðurhúsi í Hveragerði.