Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð, segir að til standi að ráðast í hreinsun á svæðinu á næstunni.
„Það voru nokkrir sem höfðu heimild til að vera á svæðinu fram að síðustu áramótum, þó að flestir hafi fjarlægt hjólhýsi sín síðasta haust. Þá var allt á kafi í snjó og gat frosið. Við erum að fara að huga að því núna að benda þeim á að þeir þurfi að fjarlægja það sem þeir eiga eftir þarna á svæðinu. Við vonumst til að það klárist með vorinu,“ segir Ásta.

Fóru í fússi
Sveitarstjórinn segir ljóst sé að einhverjir sem hafi fjarlægt hjólhýsi sín hafi skilið eitthvað af eigum sínum eftir á svæðinu.
„Það verður bara hreinsað. Það fraus allt fast og snjóaði í kaf og er nú að koma undan snjónum. Það verður hugað að þessu á næstunni.“
Þá sé ljóst að einhverjir hafi farið í fússi og skilið eftir eitthvað sem þeir vildu ekki hirða.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók ákvörðun um það fyrir rúmum tveimur árum að loka skyldi svæðinu. Ákvörðunina mátti rekja til þess að öryggismál á svæðinu væru ekki í lagi, sér í lagi hvað varðar brunavarnir.
Ekki hafi verið hægt að bæta úr brunavörnum nema rýma svæðið, deiliskipuleggja upp á nýtt og koma fyrir innviðum á borð við vatnslögnum og annað. Íbúar mótmæltu margir ákvörðuninni harðlega.

Óljóst hvað verður um svæðið
Ásta segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvað muni koma í stað hjólhýsabyggðarinnar.
„Það hefur verið rætt um að fara í samráð við íbúa um hvað fólk vill sjá þarna. Það hefur ekkert verið unnið meira með það. Við vildum tæma svæðið áður en frekari ákvarðanir verða teknar.“

Ásta segir framkvæmdina í heildina hafa gengið ótrúlega vel. „Það voru um tvö hundruð hýsi þarna og það eru fimmtán eftir núna, þannig að þetta hefur í raun gengið ótrúlega vel.
Hún segir margir hafi verið óánægðir með ákvörðunina að láta loka svæðinu enda haft hagsmuni að gæta.
„En mótmælin hafa nú lognast út af. Það voru margir sem að seldu og aðrir fundu sér annan stað fyrir hýsin sín,“ segir Ásta.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari fréttastofunnar, leit við á Laugarvatni á mánudag tók myndirnar hér að neðan sem fylgja fréttinni.




















