Þetta kemur fram í tilkynningu Hauka á Facebook þar sem greint er frá því að Díana Guðjónsdóttir, sem verið hefur Ragnari til aðstoðar, muni stýra Haukum út tímabilið. Hún fær Halldór Ingólfsson, þriðja besta leikmann aldarinnar í efstu deild karla, sér til aðstoðar.
Ragnar lét vita af því um síðustu áramót að hann vildi hætta störfum hjá Haukum í lok leiktíðar. Eftir sigra gegn Selfossi í febrúar og HK í janúar eru Haukakonur hins vegar fjórum stigum frá fallsæti í Olís-deildinni, þegar þrjár umferðir eru eftir, og svo gott sem búnar að tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni.
Ragnar bað því um að hætta strax og varð handknattleiksdeild Hauka við þeirri ósk, og er honum þakkað kærlega fyrir hans framlag fyrir félagið. Tekið er fram að hann muni áfram sinna afreksþjálfun hjá Haukum líkt og undanfarið.
Díana og Halldór eiga fyrir höndum bikarleik í Laugardalshöll í næstu viku því þá mæta Haukar liði Vals í undanúrslitum Powerade-bikarsins, og komist liðið í úrslitaleikinn fer hann fram á sama stað laugardaginn 18. mars. Haukar fara svo að öllum líkindum í sex liða úrslitakeppni Olís-deildarinnar í vor.
Fyrsti leikur Hauka eftir brotthvarf Ragnars er hins vegar á fötudaginn þegar Haukar taka á móti sjóðheitu liði ÍBV sem komið er á topp Olís-deildarinnar.