Emma Heming Willis, eiginkona Bruce Willis, birti myndband á Instagram um helgina þar sem hún sagði nauðsynlegt að vekja athygli á framheilabilun og hvernig hún hefur áhrif á þá sem þjást af henni og fjölskyldur þeirra. Hún segir aðstandendur vita vel hversu erfitt það getur verið að koma þeim örugglega á milli staða.
„Þetta eru skilaboð til ljósmyndara og myndbandagerðarmanna, sem reyna að ná myndum af eiginmanni mínum á förnum vegi. Haldið bara fjarlægð, ég veit að þetta er vinnan ykkar, en vinsamlegast haldið ykkur í góðri fjarlægð frá honum. Til fólks sem gerir myndbönd, vinsamlegast hrópið ekki til hans, ekki spyrja hvernig honum líður. Hættið að kalla vúhú eða jibbíkæjei [þar vísar hún til ódauðlegs frasa Willis úr kvikmyndinni Die hard], bara ekki gera það,“ segir hún.
Nýverið náðu útsendarar dægurmiðla myndum af Willis á meðan hann var á göngu um Santa Monica í Kaliforníu ásamt tveimur vinum sínum. Myndbirtingin hefur verið harðlega gagnrýnd vestanhafs.
Emma segir vini hans hafa staðið sig vel í því að slá hlífiskildi yfir leikarann á meðan papparassarnir hrópuðu að honum í von um svör við spurningum þeirra um líðan hans.