Lagið Power með Diljá, var annað tveggja sem komst í tveggja atriða einvígi. Hitt var lagið OK, með Langa Sela og Skuggunum. Eftir einvígið voru það símaatkvæði áhorfenda sem réðu alfarið úrslitum, og álit dómnefndar hafði þar ekkert vægi.
Diljá fór með sigur af hólmi eftir einvígið og þar með var ljóst að Diljá fer til Liverpool fyrir hönd Íslands í maí. Hún segir ólýsanlegt að draumurinn um að keppa í Eurovision sé orðinn að veruleika. Tilfinningin að heyra nafn sitt lesið upp eftir einvígið hafi verið ótrúleg.

Ekkert vont stress, bara gaman
„Þetta var mjög óraunverulegt. Ég var í alvörunni að hugsa, er þetta í alvörunni að gerast? Er mig að dreyma?“ segir hún.
Þrátt fyrir að taugarnar hafi verið þandar þá lét Diljá það ekki á sig fá.
„Þegar ég var að var að fara í einvígið þá upplifði ég engar neikvæðar tilfinningar, ekkert svona vont stress. Það var bara gleði. Þetta er ótrúlega væmið en það var bara gleði, þetta var bara ógeðslega gaman.“

Stefnir á sigur
Diljá er mikill Eurovision-aðdáandi og veit því nákvæmlega við hvað verður að etja, þegar út er komið.
„Ég get ekki beðið eftir næstu helgi, af því að úrslitin í Melodifestivalen eru þá,“ segir hún.
Diljá setur sér háleit markmið. „Markmiðið er að vinna Eurovision, það er eina stefnan núna. Stefnan er sett þangað núna,“ segir hún.