Fótbolti

Ten Hag og Klopp biðja stuðnings­fólk um að hætta að syngja um harm­leiki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp og Erik ten Hag biðla til stuðningsfólks að hætta að syngja um harmleiki á borð við flugslysið í München og Heysel og Hillsborough slysin.
Jürgen Klopp og Erik ten Hag biðla til stuðningsfólks að hætta að syngja um harmleiki á borð við flugslysið í München og Heysel og Hillsborough slysin. Richard Sellers/Soccrates/Getty Images

Erik ten Hag og Jürgen Klopp, knattspyrnustjórar erkifjendanna Manchester United og Liverpool, hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þeir biðla til stuðningsfólks um að hætta að syngja ákveðna söngva um harmleiki á leikjum liðanna.

Liverpool tekur á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni síðar í dag í einum af leikjum ársins í deildinni. 

Söngvar stuðningsfólks hafa þó einstaka sinnum sett svartan blett á viðureign þessara liða. Stuðningsfólk Liverpool hefur tekið upp á því að syngja um flugslysið í München þar sem 23 fór­ust í flug­taki, þar af átta leik­menn Manchester United, og stuðningsfólk United hefur sungið um Heysel og Hillsborough slysin. 39 manns létu lífið í Heysel slysinu og 97 manns í Hillsborough slysinu.

„Það er óásættanlegt að nýta sér það að fólk hafi týnt lífinu til að reyna að vinna sér inn stig og það er kominn tími til að þetta hætti,“ sagði Ten Hag.

„Við elskum öll ástríðuna sem stuðningsfólk sýnir þegar þessi lið mætast, en það eru ákveðin strik sem maður fer ekki yfir.“

„Þau sem bera ábyrgð á þessum söngvum sverta ekki aðeins orðspor félagana, heldur einnig orðspor þeirra sjálfra, aðdáendanna og borganna beggja.“

Jürgen Klopp tók í sama streng og segir að þrátt fyrir að hann vilji heyra lætin í stuðningsfólkinu sé auðveldlega hægt að ganga of langt.

„Þegar fjandskapurinn verður of mikill getur hann farið með fólk á staði sem eru ekki góðir fyrir neinn og það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda,“ sagði Klopp.

„Við viljum læti, að fólk skyptist í fylkingar og að andrúmsloftið sé rafmagnað. En það sem við viljum ekki er allt sem gengur lengra en það og það á sérstaklega við söngva sem eiga ekkert skylt við fótbolta.“

„Ef við getum haldið ástríðunni og losað okkur við eitrið þá verður þetta mun betra fyrir alla,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×