Samninganefnd Eflingar ákvað í gær að boða ekki til verkfallsaðgerða í öryggisgæslu, þrifum og á hótelum sem samþykktar voru fyrr í vikunni. Á vef Eflingar segir að endurmeta þurfi stefnuna í ljósi verkbanns Samtaka atvinnulífsins.
Beina útsendingu frá Iðnó má sjá í spilaranum að neðan en hún hefst um tólfleytið. Einnig er hægt að fylgjast með í sjónvarpinu á Stöð 2 Vísi (rás 5 hjá Vodafone, rás 8 hjá Símanum).
- klukkan 11:30: Húsið opnar
- klukkan 12: Baráttufundur Eflingarfélaga í verkfalli í Iðnó
- klukkan 13: Mótmælagangan hefst
Staðan í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins heldur áfram að flækjast og harðna. Eftir að yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna eða fyrirtækja innan SA samþykkti verkbann á alla félagsmenn Eflingar í gær sem hefjast á fimmtudaginn 2. mars, er ljóst að áhrif deilunnar verða mjög mikil á nánast öll fyrirtæki á samningssvæði Eflingar.
Þannig gætu til dæmis fyrirtæki sem heyra undir heilbrigðiseftirlit þurft að hætta starfsemi vegna þess að ræsting leggst af en eflingarfólk vinnur líka mörg önnur og fjölbreytt störf innan fyrirtækja.

Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari í deilunni ákvað í gær að kæra ekki niðurstöðu Landsréttar varðandi miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara til Hæstaréttar.
Hann útilokaði ekki að á einhverjum tímapunkti muni hann sjálfur leggja fram nýja miðlunartillögu. Sá tími væri aftur á móti ekki kominn.
Ástráður sagðist vera í stöðugu sambandi við deiluaðila.
Hann þarf hins vegar ekki lögum samkvæmt að boða samninganefndirnar aftur til fundar fyrr en í síðasta lagi sunnudaginn 5. mars, þó vissulega geti hann gert það fyrr.
Efling féll frá því í gær að leggja fram boðun um víðtækari verkföll hinn 28. febrúar, eða lagði að minnsta kosti ekki fram nauðsynleg gögn til Samtaka atvinnulífsins og embættis Ríkissáttasemjara áður en lögbundinn frestur til þess rann út á hádegi í gær.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hefur ekki útilokað að þau gögn og boðun þriðju lotu verkfalla verði engu að síður lögð fram á grundvelli atkvæðagreiðslu sem fram fór um þær aðgerðir.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir aftur á mótir að Efling verði að boða til nýrrar atkvæðagreiðslu vilji félagið boða frekari verkföll.
Boði félagið ný verkföll án þess, verði Eflingu samstundis stefnt fyrir Félagsdóm fyrir ólöglega verkfallsboðun.

Eins og staðan er núna er erfitt að sjá fyrir lausn á deilunni.
Hins vegar er ljóst að félagar í Eflingu hafa misst af launahækkunum sem þeir hefðu fengið ef félagið hefði gengið að samningi Starfsgreinasambandsins.
Það eru hækkanir allt frá og með nóvember og til og með febrúar sem hlaupa á bilinu 132 þúsund krónur til rúmlega 212 þúsund króna samanlagt.
Hefur þá ekki verið tekið tillit til 8 prósenta hækkunar á bónusum og 5 prósenta hækkunar á desember- og orlofsuppbót.