Þorgeir Haraldsson er nafn sem flestir handknattleiksunnendur á Íslandi þekkja og andlit sem allir, sem hafa mætt á leik hjá Haukum síðustu áratugina, kannast við. Hann hefur verið formaður handknattleiksdeildar Hauka um árabil en stígur nú til hliðar eftir magnaðan feril í starfi formanns.
Frá þessu var greint á Facebook síðu Hauka nú í kvöld og var jafnframt tilkynnt að Þorkell Magnússon, fyrrum leikmaður Hauka, muni taka við sem formaður.
Í þáttunum Foringjarnir sem sýndir voru á Stöð 2 Sport árið 2021 var Þorgeir einn af viðmælendum Henrys Birgis Gunnarssonar og hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum.
Í tilkynningu Hauka kemur fram að Þorgeir eigi keppnis- og stjórnunarferil sem spannar rúmlega hálfa öld á vettvangi handknattleiksdeildar Hauka og Knattspyrnufélagsins Hauka. Þorgeir hefur á þessu tímabili tekið þátt í gullaldartíð Hauka í bæði karla- og kvennaflokki og er leitun að aðila í sömu stöðu sem hefur setið jafn lengi eða fagnað jafn mörgum titlum.
Verðandi formaður handknattleiksdeildarinar, Þorkell Magnússon, á sigursælan feril að baki sem leikmaður Hauka en hann hefur einnig starfað við þjálfun yngri flokka auk þess að sitja í stjórn.